Feed on
Posts
Comments

Að ná bata

Það hefur verið ákaflega erfitt að skilja átröskun á öllum sviðum fræðanna og í raun hefur engin meðferð orðið til við átröskunum sem hægt er að segja að sé fullkomlega árangursrík. Rannsóknir hafa samt sem áður sýnt fram á að sálfræðimeðferð er nauðsynlegur hluti af meðferðarferlinu og að orsakir eru að miklu leiti sálrænar.

Sálfræðimeðferð er margþætt en miðar fyrst og fremst að því að gera átröskunina „atvinnulausa“ ef svo má að orði komast. Það þarf að komast að því hvaða tilgangi hún þjónaði fyrir einstaklinginn.  Hvaða vandamál var verið að leysa með þessum hætti?  Lykillinn að árangursríkri sálfræðimeðferð er að reyna að fá manneskjuna til að efast um að átröskunin sé það sem hún þarf á að halda í lífi sínu. Með samræðum er reynt að fá manneskjuna til að gerast félagi sálfræðingsins í þessu stríði gegn átröskuninni.

Mismunandi er eftir fólki hvað verður þungamiðja sálfræðimeðferðar.  Í flestum tilfellum þarf þó að taka á sjálfsgagnrýni, neikvæðum hugsunarhætti, kvíða, fullkomnunaráráttu, tilfinningatjáningu og tilfinningastjórnun.  Það þarf að byggja upp jákvæða sjálfsmynd og aðstoða einstaklinginn við að byggja upp heilbrigðari bjarghætti (coping skills).  Einnig er mikilvægt að byggja upp þykkari skráp þegar kemur að því að verjast skaðlegum áhrifum samfélagsins og ná dýpri skilningi á þeim skilaboðum og hvernig þau ná fram áhrifum sínum á lúmskan hátt.  Allt þetta aðstoðar manneskjuna við að taka á þeim tilfinningum sem koma upp þegar hegðun og þyngd fer að komast í jafnvægi og átröskuninni sleppir.

Mikilvægt er að margar starfsstéttir vinni saman og vinna sálfræðingar í flestum tilfellum með heimilislækni, geðlækni ef svo ber undir, næringafræðingi og öðrum fagstéttum eftir tilvikum og þörfum.

Áður en sálfræðimeðferð getur hafist og verið árangursrík þarf  líkamlegt ástand að vera komið úr allri bráðri hættu.  Þær sálfræðimeðferðir sem rannsóknir styðja til árangurs í meðferð átraskana eru:

  • Hugræn Atferlismeðferð (Cognitive Behavioral Therapy)
  • Díaletísk Atferlismeðferð (Dialectical Behavioral Therapy)
  • Sambandsmeðferð (Interpersonal Therapy)
  • Sögumeðferð (Narrative Therapy)

Comments are closed.