Feed on
Posts
Comments

Af hverju átröskun?

Hvers vegna fær fólk átröskun?

Það hefur verið erfitt að gera skýringarlíkan sem passar við alla sem þjást af átröskun þar sem það virðist vera mjög mismunandi eftir einstaklingum hvað gerði það að verkum að átröskun tók völdin í lífi þeirra. Rannsóknir hafa hins vegar skýrt stöðuna með því að bera kennsl á algenga áhættu- og viðhaldsþætti. Það er svo hlutverk meðferðaraðla að finna út í samvinnu við skjólstæðinginn hvaða þætti er mest viðeigandi að skoða í hverju tilfelli fyrir sig.

Áhættuþáttum hefur verið gróflega skipt í eftirfarandi fjóra flokka:

Líffræðilegir þættir: Rannsóknir á hugsanlegum líffræðilegum orsökum átröskunar hafa farið fram nú um árabil en vitað er að oft eru fleiri en einn meðlimur sömu fjölskyldu sem þjást af átröskun. Fjölskyldu- og tvíburarannsóknir hafa sýnt fram á að það virðist vera frekar sterkur erfðafræðilegur grunnur að átröskun. Þessar rannsóknir hafa samt sem áður ekki tekist að skýra það ferli nákvæmlega. Taugaboðefni heilans hafa einnig verið rannsökuð sérstaklega og þá einkum hlutverk serotonins en oft er óeðlilegt magn af því í heila fólks sem þjáist af átröskun.

Fjölskylduþættir: Hvergi hefur það komið fram í rannsóknum að allir einstaklingar sem fá átröskun komi úr einu ákveðnu fjölskyldumynstri. Margar hugmyndir hafa samt komið fram eins og að mæður stúlkna sem þjást af átröskun hafi mikla þörf fyrir að stjórna lífi þeirra, að fullkomnunarárátta sé til staðar hjá fjölskyldumeðlimum, að mikil áföll og erfiðleikar tengist fjölskyldum þeirra, að eðlileg geðtengsl hafi ekki myndast, að eðlileg tilfinningatjáning sé ekki leyfð eins og til dæmis reiði og svo framvegis. Bæði hafa verið framkvæmdar rannsóknir sem styðja þetta og rannsóknir sem gera það ekki. Auk þess hafa margar þessara rannsókna ekki getað tekið til greina að hugsanlega hafi fjölskyldan breyst við að það að einn meðlimur hennar þjáist af alvarlegri átröskun. Það er því með þetta eins og allt annað, mikilvægt er að ákveða ekkert fyrirfram um fjölskyldumynstur einstaklings sem þjáist af átröskun og hvernig það hefur haft áhrif á þróun mála. Mikilvægt er hins vegar að hafa fjölskylduna með í ráðum í öllu meðferðarferlinu, sér í lagi ef skjólstæðingurinn er yngri en 18 ára.

Sálrænir þættir: Rannsóknir hafa borið kennsl á ákveðna þætti sem viðeigandi er að taka á í sálfræðimeðferð eins og að vinna með neikvæðan hugsunarhátt og ranghugmyndir, mótun heilbrigðari bjarghátta, auka skilning, stjórnun og tjáningu tilfinninga, byggja upp jákvæða og sterka sjálfsmynd sem og líkamsímynd og svo framvegis.

Sálfræðimeðferð tekur einnig of á þeim hliðarröskunum sem stundum koma upp eins og þunglyndi, kvíða og annað sem hefur neikvæð áhrif á lífsgæði og trufla bataferilinn.

Manneskja sem þjáist af alvarlegri átröskun sér heim átröskunarinnar sem öruggt skjól, sem hann augljóslega er ekki.  Hún er oftast nær dauðhrædd við að sleppa hendi af því sem hún telur vera haldreipi í lífinu þó hún viti innst inni hversu eyðileggjandi þetta ástand er. Þessi hugsunarháttur getur sett strik í reikningin þegar kemur að bataferlinu og er oft ástæða þess að hægt gengur.  Grunnur að allri sálfræðilegri meðferð er því að nálgast hvern skjólstæðing með opnum huga, hlusta vel á sögu hans og byggja upp traust sem verður að vera hornsteinn meðferðarinnar.

Áhrif samfélagsins: Orsakaþættir sem koma frá samfélaginu eru mikilvægir og víðtækir. Þeir hafa áhrif á flestar konur að einhverju leyti, ekki bara þær sem þróa með sér alvarlega átröskun.

Um 90% þeirra sem þjást af átröskun eru ungar stúlkur og konur. Hægt er að finna vel skilgreind tilfelli lystarstols á 16. öld og jafnvel enn lengra aftur. Átröskun er því ekki nýtilkomin en tíðni sjúkdómsins hefur vaxið ískyggilega síðustu þrjá áratugi. Margir telja að þær kröfur sem samfélagið gerir til kvenna varðandi ákveðið útlit hafi haft einhver áhrif á þá þróun. Þegar talað er um samfélagsáhrif er oftast átt við áhrif fjölmiðla, sérstaklega auglýsinga, þá mynd sem þar birtist af kvenlíkamanum og þá gífurlegu æskudýrkun sem þar á sér stað.

Fjölmiðlar og samfélagið hampa greinilega einni ákveðinni líkamsgerð kvenna meira en öðrum. Konur eiga að vera mjög grannar, með stór brjóst og langa fótleggi. Afleiðingin er óhjákvæmilega sú að sumar konur sem ekki passa inn í þessa mynd upplifa líkama sinn á neikvæðan hátt og löngunin til að breyta honum getur orðið mjög sterk. Karlmenn standa hins vegar ekki frammi fyrir sömu kröfum og umfjöllun um sinn líkama og konur og þjást ekki af átröskun í sama mæli og þær.  Blikur eru á lofti um að þetta sé þó að breytast og margir karlmenn telja sig vera sífellt meira varir við þrýsting frá samfélaginu hvað varðar ákveðið útlit.

En það væri rangt og mikil einföldun að telja fjölmiðla og áhrif samfélagsins í heild sinni eina og aðal orsakavaldinn því ef svo væri þá væru hugsanlega flestar konur meira og minna haldnar alvarlegri átröskun. Það er hins vegar rétt að samfélagsáhrif og umfjöllun fjölmiðla hafa umtalsverð áhrif á sjálfsmynd margra kvenna og stúlkna og ýta undir megrunaræði og hina endalausu þrá eftir hinum „rétta“ líkamsvexti.  Í raun eru nær allir undir miklum áhrifum þessarar tilbúnu samfélagsmyndar og fáir ef nokkrir eru algerlega ónæmir fyrir þeim. En það er eitthvað sem veldur því að sumar konur stöðva megrun áður en of langt er gengið á meðan aðrar fara yfir mörkin, svo langt að þær missa alla stjórn á aðstæðum og átröskunin nær völdum.   Rannsakendur telja að þetta “eitthvað” sé sambland af sálrænum og líffræðilegum þáttum.

Comments are closed.