Feed on
Posts
Comments

Einkenni átröskunar

Líkamleg einkenni átröskunar

Ýmis einkenni átröskunar geta verið lífshættuleg og koma mörg þeirra fram sem líkamleg einkenni sem nauðsynlegt er að læknar, hjúkrunarfræðingar og annað sérhæft starfsfólk heilbrigðisstofnana meðhöndli og fylgist með. Þessi einkenni eru mýmörg og verður hér minnst á þau helstu.

 • Hægur og óreglulegur hjartsláttur vegna langvarandi sveltis getur skapað alvarleg vandamál bæði meðal einstaklinga sem þjást lotugræðgi og lystarstoli. Lágur blóðþrýstingur er algengari meðal einstaklinga með lystarstol, sem oft svimar þegar staðið er upp. Hár blóðþrýstingur er svo hins vegar algengari meðal þeirra sem þjást af lotugræðgi og átkastaröskun.
 • Næringarskortur og síendurtekin uppköst geta leitt til vítamínskorts, járnskorts og nýrnabilunar.
  Húðþurrkur getur orðið svo mikill að húðin næstum því flagnar af.
 • Beinþynning er mjög alvarlegt og algengt vandamál, sérstaklega meðal einstaklinga með lystarstol og gengur ekki alltaf til baka.
 • Bjúgur vegna mikillar vatnssöfnunar og það sem alvarlegra er, vatnssöfnun í lungum sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
 • Líkaminn bregst við svelti á undraverðan hátt. Algengt er að einstaklingar með lystarstol fái dularfullan hárvöxt um allan líkamann, einkum á bakið. Um er að ræða lítil og ljós hár sem líkjast dúni og er tilgangur þeirra að verja líkamann gegn kulda þar sem allt fitulag er horfið. Manneskju með lystarstol er sífellt kalt þótt hlýtt sé inni þar sem fitulag líkamans er nánast ekki neitt. Mjög algengt er að hún reyni að klæða af sér kuldann með mörgum lögum af fötum.
 • Eftir langvarandi svelti er ekki óalgengt að líkaminn slökkvi á ýmsum kerfum sínum til að spara orku og margar konur hætta þess vegna að hafa tíðir. Er það merki um að eitthvað alvarlegt sé að og getur tekið langan tíma að koma upp eðlilegum, reglulegum tíðum aftur. Það er eins og líkaminn viti að konan geti ekki borið barn undir belti við núverandi aðstæður en þegar tíðir hefjast að nýju er það merki um að líkamlegt ástand sé að komast í betra horf. Undraverður hæfileiki líkamans til að heila sjálfan sig kemur oft fram hjá einstaklingum sem þjást af átröskun. Hins vegar gerist það stundum að tíðahringurinn verður ekki eðlilegur aftur og mun konan þar af leiðandi eiga í erfiðleikum með að eignast börn í framtíðinni.
 • Hárlos verður oft mun meira en venjulegt getur talist vegna næringarskorts og streitu.
 • Vöðvabólga og höfuðverkur eru einnig algengir kvillar og tengjast streitunni sem fylgir en algengt er að manneskja sem þjáist af átröskun sé í spennustöðu allan daginn og leyfi sér ekki að slaka á.
 • Svefnerfiðleikar eru mjög algengir og martraðir einnig. Það skapast vegna mikils álags, vanlíðunar og streitu.
  Tannskemmdir eru algengar hjá fólki sem á við lotugræðgi að stríða og glerungurinn eyðist vegna sífelldra uppkasta.
 • Endurtekin uppköst geta orsakað slit á vélinda auk blæðinga í maga og þörmum. Uppköst orsaka einnig vökvasöfnun sem oft verður til þess að manneskjunni finnst hún vera feit sem svo framkallar áframhaldandi löngun til uppkasta.
 • Einstaklingar með lystarstol fá oft alvarlega vöðvarýrnun þar sem líkaminn fer í raun að nærast á sjálfum sér þegar engin fæða er til staðar. Getur þetta gengið svo langt að ásamt almennu orkuleysi verði viðkomandi ófær um að ganga eða jafnvel setjast upp.

Ýmis önnur einkenni átröskunar

 • Ofvirkni og eirðarleysi
 • Pirringur
 • Miklir erfiðleikar með að taka ákvarðanir
 • Grátköst
 • Þunglyndis- og kvíðaeinkenni
 • Sérkennileg, áráttukennd hegðun
 • Félagsleg einangrun
 • Kvíðaköst
 • Sjálfsvígshugsanir
 • Skapsveiflur
 • Einbeitingarskortur og erfiðleikar með minni
 • Erfiðleikar með að átta sig á tilfinningum sínum og tjá þær
 • Minnimáttarkennd
 • Vilja gera öllum til geðs/auðsveipni
 • Tala lágt (sérstaklega einstaklingar með lystarstol þegar anorexían tekur völdin)
 • Geta ekki slakað á/spenna
 • Erfiðleikar með að borða með öðrum
 • Mikill áhugi á mat og matarundirbúningi, vill elda fyrir aðra en ekki borða matinn sjálf/ur

Comments are closed.