Feed on
Posts
Comments

Flokkar átröskunar

Eftirfarandi eru þeir flokkar átröskunar sem greindir eru í dag eru:

Lystarstol (Anorexía Nervosa)

Enska heitið Anorexia Nervosa þýðir á ensku „loss of appetite“ og er bein íslensk þýðing þess „lystarstol“. Einstaklingur með lystarstol minnkar matarskammta mikið, hættir jafnvel alveg að borða og eykur hreyfingu í þeim tilgangi að léttast. Þrátt fyrir að leggja mikið af getur viðkomandi ekki hugsað sér að þyngjast aftur og hugsanir snúast nær eingöngu um áframhaldandi þyngdartap. Þessar hugsanir verða áleitnari eftir því sem lystarstolið nær meiri tökum á manneskjunni. Ýmsar ranghugmyndir um brennslu og kaloríur fara að láta á sér kræla og hafa í för með sér alls konar óheilbrigða hegðun.

Lotugræðgi (Búlimía Nervosa)

Búlimía Nervosa hefur verið þýtt sem lotugræðgi. Manneskja sem þjáist af lotugræðgi hefur sömu þrá og manneskja með lystarstol; að vera grönn. Hún sveiflast á milli sveltistímabila og tímabila þegar hún missir stjórnina og borðar gífurlegt magn af fæðu (átkast) og kastar svo upp. Mikilvægt er að athuga að hér er átt við mun meira magn en venjuleg manneskja myndi borða og því ekki um það að ræða að borða annað slagið yfir sig. Í raun getur verið erfitt að sjá á manneskju sem á við lotugræðgi að stríða að eitthvað ami að, þar sem hún er líklegri til að vera í eðlilegum holdum en manneskja með lystarstol.

Átröskun ekki frekar skilgreind:

“Átröskun, ekki frekar skilgreind” eða “Eating Disorders Not Otherwise Specified”, er þriðji og jafnframt stærðsti greiningarflokkurinn en þar er átt einstaklinga sem uppfylla ekki öll greiningarviðmið lystarstols eða lotugræðgis en eru samt sem áður að kljást við alvarleg átröskunareinkenni. Um er að ræða talsvert algengt vandamál sem þarf samt sem áður venjulega ekki á bráðaþjónustu eða spítalainnlögn að halda. Hins vegar er fórnarkostnaðurinn mikill hvað varðar lífsgæði og svo almenna starfshæfni í samfélaginu. Þess vegna er vel réttlætanlegt að veita þessum einstaklingum sömu sálfræðimeðferðina. Manneskjan á í miklum erfiðleikum með að borða, fer oft í megrun án þess endilega að þurfa þess, er mjög gagnrýnin á líkamsvöxt sinn, passar gífurlega vel upp á það sem hún borðar, verður sakbitin ef hún borðar eitthvað sem hún hefur sett á bannlista, er upptekin af útliti sínu og tengir virði sitt sem manneskju beint við það.

Átkastaröskun (Binge Eating Disorder)

Þessi tegund átröskunar er ekki enn hluti af greiningarkerfunum en segja má að hún sé á biðlista og fellur hún í dag í þriðja greiningarflokkinn „átröskun, ekki frekar skilgreind“ sem minnst var á hér að framan. Átkastaröskun er frábrugðin öðrum tegundum átröskunar að því leyti að viðkomandi borðar mikið magn af fæðu en kastar henni ekki upp.  Átkastaröskun er hins vegar svipuð hinum greiningarflokkunum að því leyti að manneskjan á í miklum erfiðleikum með sjálfsmynd sína, er mjög ósátt við hvernig hún lítur út, notar mat í þeim tilgangi að líða betur og hugsanlega sem lausn við sálrænum vanda. Flestum finnst gott að borða, elda góðan mat og slaka á en þegar um átkastaröskun er að ræða fer át út í öfgar og hefur oft þann tilgang að stjórna kvíða og fá útrás fyrir neikvæðar tilfinningar.

Comments are closed.