Feed on
Posts
Comments

Fyrir aðstandendur

Fjölskyldumeðlimir ganga ekki síður í gegnum mikið þegar ástvinur þeirra þjáist af átröskun en sá sem þjáist.  Tilfinningar eins og vonleysi, reiði, hræðsla, sektarkennd og örvænting eru algengar og auka enn á ringulreiðina sem oft skapast í heimilislífinu.  Stuðningur við fjölskylduna er því mikilvægur og þarf að vera hluti af heildarmeðferðarferlinu.  Það er einnig mikilvægt að fræða fjölskyldumeðlimi og vini um átraskanir og hvernig best er að taka á málum.  Fjölskyldumeðlimir þurfa auk þess að læra hversu mikilvægt það er að hugsa um sjálfa sig svo þeir geti sem best verið til staðar fyrir ástvin sinn.  Þetta er mjög mikilvægt atriði sem oft ferst fyrir.

Stuðningsnet vina og fjölskyldu er mikilvægt hverjum þeim sem af átröskun þjáist.  Það verður seint ofsagt hversu mikilvægt það er að styðja við þetta stuðningsnet á skipulagðan hátt.  Eiginmenn, eiginkonur, kærastar og kærustur, feður, mæður, vinir og systkini þurfa á stuðningi að halda.  Í þar til gerðum stuðningshópum læra þau meðal annars hvernig samskiptum þeirra við þann sem þjáist sé best háttað og hvernig hægt sé að styðja hann sem best til bata.  Meðlimir þessara hópa styðja hvern annan í því að gleyma því ekki að hugsa um sjálfa sig, fá útrás fyrir þær tilfinningar sem nefndar eru hér að ofan og heyra frá öðrum í sömu sporum.

Flestar meðferðarstofnanir eru með stuðningshópa fyrir fjölskyldur sem venjulega eru vel sóttir.

Comments are closed.