Feed on
Posts
Comments

Lögregla og Slökkvilið

Lögreglumenn og slökkviliðsmenn vinna oft undir miklu álagi sem er stöðugt og verður oft þrúgandi á sérstökum álagstímum.  Þetta sífellda álag sem og einstaka atburðir hafa mikil áhrif á sálræna líðan þeirra, fjölskyldulíf og samband við maka.  Nýleg íslensk rannsókn á streitu og líðan lögreglumanna sem gerð var af embætti Ríkislögreglustjóra sem og fjöldamargar erlendar rannsóknir renna stoðum undir þetta.

Þórdís Rúnarsdóttir býður upp á sálfræðiþjónustu sem er sérsniðin að þörfum lögreglumanna, slökkviliðsmanna og fjölskyldna þeirra.  Tekið er til dæmis á eftirfarandi þáttum:

  • Álag og steita í starfi
  • Kvíði og þunglyndi
  • Áföll
  • Samstarfserfiðleikar
  • Erfiðleikar í hjónabandi/sambandi og fjölskyldulífi sem að einhverju leyti má rekja til starfsins

Þórdís hefur reynslu af starfi með lögreglumönnum. Um þriggja ára skeið starfaði hún samhliða doktorsnámi í Berkeley borg í Kaliforníuríki með lögregluliði borgarinnar, Berkeley Police Department.  Berkeley er í næsta nágrenni San Francisco og Oakland við San Francisco flóann og er þekkt fyrir fjölskrúðugt  og fjölbreytt mannlíf.  Hún er heimaborg Kaliforníuháskóla, eins stærsta háskóla Bandaríkjanna, auk þess sem þar er ein hæðsta tíðni heimilislausra í Bandaríkjunum. Margir hinna heimilslausra eru fyrrverandi hermenn úr Víetnam og Persaflóastríðunum, fíkniefnaneytendur, auk stórs hóps heimilislausra ungmenna (e. “run-away teens”) sem sækja í sólina í Kaliforníu frá hinum ýmsu fylkjum Bandaríkjanna og eru þá oft að flýja ömurlegar heimilisaðstæður heima fyrir.

Mikið álag er á lögregluliði borgarinnar vegna þessa mikla fjölda heimilislausra sem oftar en ekki þjást af geðrænum vandamálum og einnig er áfengis og vímuefnanotkun algeng meðal þessa hóps.  Þórdís gekk vaktir með lögreglunni í Berkeley innan svokallaðs Mobile Crisis Team og starfaði þar einnig með slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum.  Þar aðstoðaði hún lögreglu við að takast á við margvíslegar aðstæður sem sköpuðust vegna ofangreindra hópa heimilislausra og sinnti einnig öðrum verkefnum þar sem vegna annarra borgarbúa m.a. forræðissviptingar vegna sjálfsvígshugleiðinga eða geðrænna vandamála, stuðning við aðstandendur þeirra sem höfðu framið sjálfsvíg, afskipti af heimilisofbeldi og heimiliserjum, samtöl við vændiskonur og heimilislausa um rétt þeirra til þjónustu og leiðir til að komast af götunni, ofl.

Auk þess að starfa með lögreglu og slökkviliði á vettvangi sinnti hún einnig ráðgjöf til þeirra lögreglumanna og slökkviliðsmanna sem áttu erfitt vegna vinnuálags og streitu og sinnti áfallahjálp fyrir hópa og einstaklinga sem höfðu lent í erfiðum málum og atburðum eins og skotárásum og öðru ofbeldi sem kom upp í daglegum störfum.

Þórdís hefur sinnt þessum hópi fagfólks á Íslandi á sálfræðistofu sinni.

Comments are closed.