Feed on
Posts
Comments

Rauði Krossinn

Hjálparsími Rauða krossins 1717

1717.jpg

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er gjaldfrjáls sími sem er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna kvíða, þunglyndis, depurðar, efnahagsáhyggja eða jafnvel sjálfsvígshugsana. Hjálparsíminn 1717 gegnir því hlutverki að veita ráðgjöf til fólks á öllum aldri sem óskar eftir stuðningi.

Starfsmenn og sjálfboðaliðar 1717 veita upplýsingar um hvar megi leita frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning. Meðal hlutverka Hjálparsímans er einnig að vera til staðar fyrir þá sem eru einmana og einangraðir og þurfa upplýsingar um samfélagsleg úrræði.

Hjá Hjálparsímanum starfa tæplega 100 sjálfboðaliðar auk starfsmanna. Allir hafa hlotið þjálfun í virkri hlustun, sálrænum stuðningi, skyndihjálp, viðtalstækni, og fleira. Að auki stendur Hjálparsíminn tvisvar á ári fyrir svokölluðum átaksvikum til að bregðast við aðstæðum í þjóðfélaginu eða til að vekja athygli á ákveðnum málaflokkum og málefnum.  Sjálfboðaliðarnir fá þá sérstaka fræðslu um málaflokkinn og hafa á reiðum höndum upplýsingar um úrræði í þeim efnum.

Í átaksviku Hjálparsímans 1717 í mars 2008 var sjónum beint að málefnum fólks í greiðsluerfiðleikum. Tilgangurinn var að benda fólki á að það gæti fengið ráðgjöf og upplýsingar um úrræði sem stæðu þeim til boða með því að hringja í Hjálparsímann 1717. Þetta á einnig við í þeim efnahagsörðugleikum sem herja á þjóðina vegna fjármálakreppunnar.

Allir sem starfa við 1717 eiga það sameiginlegt að vilja sýna náungakærleika og vera til staðar fyrir þá sem þurfa á einhverjum að halda til að ræða við. Þar er einnig öflug upplýsingaveita um hvernig hægt er að leita lausna á vandamálum þeirra einstaklinga sem leita til Hjálparsímans. Hjálparsíminn 1717 er opinn allan sólarhringinn allt árið um kring. Ókeypis er að hringja úr öllum símum og trúnaður er alger.

Comments are closed.